Friday, November 29, 2013

Amerískar súrmjólkurpönnukökur

Ekki hef ég nú verið dugleg að uppfæra hérna en þegar ég er beðin um sömu uppskriftina oftar en tvisvar í mánuði þá finnst mér ljómandi að bara skrifa hana upp hér og vísa í framvegis. Uppskriftin er úr bók sem heitir "Brunch á 100 vegu". Það má alveg blanda deginu öllu saman og láta standa í ísskáp. Nú eða einsog við erum margoft búin að gera. Blanda þurrefnunum og taka með í bústaðinn, blanda því blauta saman á staðnum og voila!

Allavega þá er þetta frábær pönnsuuppskrift þegar mar vill þessar þykku litlu ;)

magn dugir fyrir 6

300 g (5dl) hveiti
4 msk sykur
4 tsk lyftiduft
1 tsk salt
6 msk olía (ég nota Isio, hún er bragðlaus og fín)
2,5 dl súrmjólk (gräddfil ef mar er í Svíþjóð)
2,5 dl mjólk
2 egg

Blanda saman þurrefnum í skál. Blanda restinni sér og þeyta saman með gaffli. Blanda saman innihaldi beggja skála og hræra vel.

Ef maður er óvanur að steikja amerískar: mar setur cirka 3 litla klatta á pönnuna. Snýr þegar farið að myndast loftbólur. Meðalhiti; ef dökk er hitinn of hár, ef ljós hiti þarf að skerpa á.

Sunday, March 17, 2013

(Ofnbakað) Eggaldin með mozzarella

Í hádegismat vil ég gjarnan geta fengið mér einhvað létt og gott. Sérstaklega ef ég er á leiðinni að fá mér pönnsur og rúllutertu í kaffinu einsog í dag ;)
Eggaldin hef ég átt dálítið erfitt með en er að ná tökum á þessu núna, þarf að salta vel, baka hægt og í dag prófaði ég að steikja OG baka í ofni. Þá fer tyggjóáferðin alveg í burtu. Skemmdi heldur ekkert fyrir að ég notaði búffelmozzarella (gerða úr búffalómjólk) ofaná... varla hægt að klikka með svoleiðis.

Eggaldin með mozzarella
(uppúr DN)
f 2

1 meðalstórt eggaldin, skorið í 1/2 cm þykkar sneiðar
1 egg, slegið
1-2 dl maísmjöl
1 tsk oregano
2 dl tómatar í dós
1 kúla mozzarella (búffel ef það er í boði)

Tek eggaldinsneiðarnar, salta aðeins og vendi uppúr egginu og vendi þvínæst uppúr maísmjölinu. Legg til hliðar og geri eins með allar. Hita olíu á pönnu og steikja 2-3 mín á hvorri hlið þartil gyllt á báðum hliðum. Oreganó stráð yfir. Raðað í form og tómötum (maukuðum) helllt yfir. Mozzarellaostinum dreift yfir. Bakað við 225 gráður í korter. Ég stráði svo smá Dúkkah yfir og bar fram með salati.

Tuesday, March 12, 2013

Súkkulaðibitakökur

Ég er búin að komast að því! Finna mitt "últimate" bestasta. Ég ætla ekki að þykjast búa til eigin uppskriftir en hinsvegar safna ég að mér uppskriftum, bókum, bæklingum, afrifum úr blöðum, bloggum... jah... hvar sem uppskrift er að finna. Tek með mér heim og reynslubaka eða elda. Og svo stundum nær maður að gera samanburð. Fann nýtt og skemmtilegt bökunarblogg hjá rithöfundi sem ég dáist mikið að, og að sjálfsögðu varð ég að prófa hennar chocolate chip cookies.
En því miður! Því miður stóðst það bara engan vegin þær súkkulaðibitakökur sem ég bakaði eftir uppskrift úr gömlu Laga Lätt blaði (nr10, 2010). Og að sjálfsögðu verð ég að skrásetja þetta hér. Ég held að sú staðreynd að í góðu uppskriftinni eru hnetur og haframjöl, smjörið er óbrætt og útkoman eru seigar og passlega sætar kökur geri það að verkum að þessar hafa vinningin frammyfir Lomelinokökurnar sem eru stökkar og með alveg geðsýkislega miklu súkkulaðibitum í. En hei, ef þér finnst það bestast þá er hlekkurinn hérna fyrir ofan ;)


Chocolate Chip Cookies / Súkkulaðibitakökur

100 g dökkt súkkulaði (70% cirka)
1 dl hakkaðar heslihnetur eða aðrar hnetur
2 dl farinsocker (púðusykur)
1,2 dl venjulegur sykur
150 g smjör, við stofuhnita
2 egg
3 dl hveiti
3 dl haframjöl
1/2 tsk bíkarbónat (natrón)
2 klípur salt

Hita ofn á 200gráður. Hakka súkkulaði og hnetur gróft. Þeyta saman sykur og smjör. Bæta eggjunum við og blanda vel saman. Blanda saman í sérskál hveiti, haframjöli, hnetum, salti og natróni. Hræra saman við eggjasmjörblöndunni. Bæta súkkulaðinu við.
Setja 30 litlar kúlur á 3 plötur og ýta kúlunum örlítið niður svo þær verði flatari (þær renna vel út í ofninum svo reyndu að hafa þær dáldið jafnar og gott bil á milli).
Baka eina plötu í einu í 12-15 mín.

Monday, March 11, 2013

Nautahakkssúpa með grænmeti

Þessi nautahakkssúpa er súpa sem er efst á súpulista barnanna. Í öðru sæti á eftir tómatsúpu sem þeir kalla "tómatSÓSU" og ég er ekkert að leiðrétta þann misskilning ;) Finnst ágætt að nota nautahakk í einhvað annað en hakk og spagettí... svona stundum...

Hakksúpa
fyrir 4

2 gulrætur
2 palsternackor (aflangar rófur)
og/eða kartöflur
1 laukur
2 hvítlauksrif
400 g nautahakk
2 msk olía
2 msk tómatpúré
1 dós tómatar
1 líter vatn
2 teningar kjötkraftur
2 tsk salt
pipar
hökkuð steinselja

Þykk jógúrt (grísk eða tyrknesk) að bera fram með

Afhýða grænmetið og skera í bita/sneiðar. Sama með laukinn og hvítlaukinn og skera smátt.
Taka fram pott, hita olíuna og steikja hakkið í smástund. Bæta svo við lauknum og eftir smástund líka grænmetinu. Steikja saman í nokkrar mínútur.
Bæta við tómatpúré, dósatómötum, kjötkrafti og vatni. Láta sjóða með lokinu á í nokkrar mínútur eða þartil grænmetisbitarnir eru mjúkir. Salta og pipra eftir smekk.
Skreyta með "dassi" af steinselju og bera fram með jógúrt.

Saturday, February 16, 2013

Bananakaka með berjum og kremi

Bananakaka með berjum og kremi.

Uppskriftin er úr gömlu Gestgjafablaði sem ég var búin að líma inní uppskriftabókina mína ónýtt í mörg ár. Þartil um daginn þegar mig langaði að gera öðruvísi bananaköku en venjulega og loksins átti ég ber (enda er þetta bananakaka með berjum). Reyndar ekki bláber einsog uppskriftin segir til um heldur jarðaber en ekki varð hún síðri fyrir því. Berin verða að vera fersk.

90 g mjúkt smjör
170 g sykur
2 egg
2 vel þroskaðir bananar, stappaðir
2-3 dl bláber/skorin jarðaber
220 g hveiti
1 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
50 g haframjöl
1 tsk vanilludropar

Hita ofn í 175 gráður og taka fram jólakökuform sem er fóðrað með smjörpappír.

Hræra vel saman smjöri og sykri, bæta eggjum við einu í einu og hræra vel á mili. Bæta svo við stöppuðu bönununum (flott orð!). Hella berjunum í sér-skál og púðra yfir þau 2-3 msk af hveiti svo þau þekjist örlítið. Þá maukast þau ekki jafn mikið í deiginu. Bæta svo öllum þurrefnum við. Ef þú ert að nota bláber skaltu núna bæta þeim varla við ásamt vanilludropunum. Hella svo deiginu í formið. Ef þú ert að nota jarðaber skaltu bæta vanilludropunum við og hræra en svo get ég mælt með að hella helmingi deigsins í formið og láta svo jarðaberin ofaná áður en þú hellir restinni af deiginu yfir.
Bakað í 50 mín. Kæla.

Ostakrem:
80 g mjúkt smjör, 80 g rjómaostur og 80 g flórsykri blandað vel saman ásamt 1 tsk rifnum sítrónuberki. Smurt yfir kalda kökuna.